Sunday, March 28, 2021

Eldgosið skoðað aftur, 26. mars

Farið aftur að skoða eldgos, 26. mars. Fjölskylduferð okkar systkina og Krstjáns að þessu sinni. Vel heppnuð ferð og tók heilar 6 klst og akstur að auki. fórum umhverfis Geldingadalinn og þar með eldstöðina. Aðstæður mjög góðar en samt talsvert kalt þar sem gosið náði ekki að hlýja manni.



Séð yfir hraunið. Það sem hér vakti mesta athygli mína var að hið ofurfína helluhraun sem var að myndast nokkrum dögum fyrr hafði ekki þolað álagið af hraunrennsli að fylla dalinn og hafði allt brotnað upp.

Helluhraunið orðið að frekar grófu apalhrauni. Það er hins vegar næsta víst að þarna á eftir að renna annað hraunlag yfir og ég vel mögulegt það endi sem helluhraun. Þegar helluhraunið kom að hækkuninni í dalbotninum kom fyrirstaða og innri þrýstingur kvikunnar sem náði ekki að ýta hrauninu áfram lárétt eða undan halla hefur sprengt það upp. Líklega á helluhraun mjög erfitt með að renna upp brekkur. Þar verður skriðbelti apalhraunsins að sjá um færsluna. Svona ef heimfært upp á klassíska straumfræði þá er þetta spurning um laminert eða turbulance rennsli.

Var mættur með nýjan (gamlan) dróna. Átti reyndar í talsverðum erfiðleikum með hann - enda ekki sérlega góðar aðstæður til að læra á nýjan dróna í þeim aðstæðum sem þarna voru. Skítkalt, einhver vindur og flug þyrlu og einkaflugmanna sem virti ekki almennar grundvallar flugreglur að trufla.

Séð ofan í hraunið. Náði jú einhverjum sæmilegum drónamyndum þrátt fyrir að vera ekki alveg að kunna þetta með nýjan ókunnugan dróna.

Þjóðhátíðarstemning. Þarna vantaði bara brekkusöng held ég - hef reyndar aldrei farið á Þjóðhátíð í Eyjum en þetta er eitthvað svoleiðis. Sátum þarna drykklanga stund.

Upplýstur gösmökkurinn blasir við þegar við vorum að nálgast Suðurstrandarveginn aftur á bakaleið. Svona miðað við almennilegan gosmökk þá er þessi þannig að mér finnst á mörkunum að það sé hægt að kalla þetta gosmökk. Veit eiginlega ekki almennilega hvort lögmálin um hvað gerist í öflugum gosmekki séu að fullu virk þarna.

No comments: