Eftir hverju erum við að bíða? Stærstu skjálftar á Reykjanesskaga síðustu 100 árin voru 1929 og 1968 og voru í Brennisteinsfjöllum sem er hjá Bláfjöllum. Báðir skjálftar komu í kjölfar skjálftahringa árið á undan í líkingu við það sem við höfum núna í febrúar-mars 2021. Það er vitað að spennan sem losnar í skjálftunum við Fagradalsfjall og Kleifarvatn færist áfram í austur að Brennisteinsfjöllum og þar er því reiknað með skjálfta um eða yfir magnitude 6. Brennisteinsfjöll eru talsvert nær höfuðborgarsvæðinu en Fagradalsfjall eða Kleifarvatn og myndi því hafa talsvert meiri háhrif þar. Hann ætti þó ekki að valda neinum alvarlegum skemmdum, þ.e. engin hús ættu að hrynja en einhver hús gætu skemmst eitthvað.
Það veit hins vegar enginn hvernig framhaldið verður á þessu. Þessi stóri skjálfti í Brennisteinsfjöllum er yfirvofandi og atburðarásin 1929 og 1967-8 minnir á margt á þá atburðarás sem hófst í janúar 2020 með jarðskjálftum við Þorbjörn. Mér finns hins vegar áberandi í því sem kemur fram í þessu yfirliti hér að þegar stóru skjálftarnir hafa komið í Brennisteinsfjöllum þá hefur mánuðina á undan ekki verið skjálftar vestar á Reykjanesi. Ég ætla því að telja líklegast að þannig verði það líka núna. Við fáum ekki þennan stóra skjálfta í Brennisteinsfjöllum á næstu vikum en hann kemur þá frekar seinna á þessu ári eða á næsta ári.
Varðandi væntanlegt eldgos þá er nær öruggt að á næstu 1000 árum muni gjósa á Reykjanesi en hvenær er ekki vitað. Það nálgast en það er ekkert eða mjög fátt í þeim atburðum sem hafa verið núna sem er eðlilegt að tengja við eldgos. Á meðan ekki mælast neinar kvikuhreyfingar þá er í raun ekkert sem bendir til þess að eldgos sé yfirvofandi. Það gæti þó alveg komið öllum að óvörum - en telst varla líklegt.
Hér í link má sjá yfirlit yfir alla þekkta jarðskjálfta á Reykjanesi.
Um skjálftann 1929
Morgunblaðið 25. júlí 1929 segir frá jarðskjálftanum sem var daginn áður. Eins og fram kemur var ekki hægt að fá góðar upplýsingar um hann þar sem eini jarðskjálftamælirinn sem var til þá á Íslandi þoldi ekki skjálftann. Upplýsingar þá frá Englandi voru ekki réttar miðað við það sem núna er talið að hann hafi átt upptök sín í Brennisteinsfjöllum og stærðin hefur verið metin 6.3 ef miðað er við það sem er á yfirliti Veðurstofunnar.Um skjálftann 1968
Vísir segir frá skjálftanum í desember 1968. þó ég muni ekki eftir þessu þá er þetta líklegast fyrsti jarðskjálftinn sem ég upplifði, tæplega tveggja ára gamall. Við bjuggum þá í Austurbrún 2 á 5. hæð en þar stöðvaðist lyftan vegna jarðskjálftans eins og kemur fram í fréttinni hjá Vísi. Þessi skjálfti varð í Brennisteinsfjöllum og stór skjálfti hefur ekki orðið þar síðan og við erum í raun að bíða eftir honum núna um mánaðamót febrúar - mars 2021.Umfjöllun Morgunblaðsins um skjálftann 1968. Það sem er sérstakast er að fréttir af þessum jarðskjálfta fengu ekki almennilegt pláss á forsíðu eða baksíðu blaðsins. Forsíðan var að venju helguð erlendum fréttum eingöngu - það þurfti líklega eldgos til að komast á forsíðuna þá. Á baksíðunni var verið að fjalla um EFTA viðræður, öryggisbúnað í Álverinu í Straumsvík - eftir banaslys sem urðu þar eitthvað áður, hita í borholu á Reykjanesi, vígslu á kaþólskum biskup og svo örfrétt um jarðskjálftann sem vísar áfram um frekari umfjöllun á síðu 19. Plássið sem jarðskjálftinn fær er um helmingurinn af því sem fréttin um kaþólska biskupinn fær
Færslur fyrst settar á Facebook en færðar hingað einnig... seinna þegar eldgosið var löngu hafið!
No comments:
Post a Comment