Monday, February 10, 2020

Ætli það sé ekki að vera komið gott í dótadögunum!

Það er nú líklega ekki hægt að segja að ég hafi verið að ana að neinu varðandi nýjasta dótið. Meðgöngutíminn er búinn að vera nokkur ár... nokkuð mörg ár og kvikindið er búið að skipta um eðli nokkrum sinnum á leiðinni. Er búið að vera til skiptis racer og cyclocross hjól en endaði svo á því að vera það sem ég kallaði tveggja demparahjól en einn misvitur hló að mér og sagði að eiginlega öll hjól með dempara yfir höfuð væru með tvo dempara, tvo framdempara þá... ég væri væntanleg að tala um fulldempað hjól. Það má kannski til sans vegar færa að það megi kalla það fulldepmað hjól en hitt er rugl að það séu tveir demparar að framan því oft gormur en vökvadrasl hinum megin. En hvað um það.

En það eru held ég í öllu falli komin svona tvö ár síðan ég skipti síðast um skoðun og ákvað að mig langaði mest af öllu í eitthvert voðalegt fulldempað fjallahjól. Eitthvað var pælt og spekúlerað og yfirleitt virtist vera gáfulegast að kaupa þetta á vefnum einhvers staðar útlendis frá en einhvern tímann síðasta haust sá ég að það var víst hægt að fá hjól á alveg fínu verði með að panta í gegnum Markið hér heima og vera þá kannski með einhverja þjónustu ef eitthvað kæmi uppá. Var svona eiginlega búinn að ganga frá þessu síðasta haust en það varð líklega athyglisbrestinum að bráð og ekkert varð úr því þá. Svo var látið til skarar skríða einhvern tímann í nóvember líklega en mér tókst víst að telja sjálfum mér trú um að hjólið væri uppselt hjá þeim og það frestaðist. Svo loksins núna eftir áramótin - líka þegar búið var að lækka virðisaukaskattinn á fyrsta 200 þúsundkallinum í hjólinu, þá var gengið frá þessu. Þriggja vikna afhendingartími átti að klárast miðja þessa viku og þeir hringdu í mig uppúr hádeginu í dag og hjólið komið!

Eins og ég sagði við þá í búðinni með talsverða eftirvæntingu í röddinni: Núna verður sko gaman!

No comments: