Það má færa til bókar að gengið var á hann Eyjafjallajökul um síðustu helgi með Ferðafélag Íslands í einhverri þeirri mestu edilonsblíðu sem ég hef komist í þar. Bolaveður góðan hluta leiðarinnar, jafnvel stuttermabols! Var þar í hlutverki gæds með Hjalta, Pétri, Höskuldi og Unni. Gekk áfallalaust fyrir sig. Gengið var upp Skerjaleið við Grýtutind, Skerjum fylgt á Goðastein (?) og þaðan haldið suður með gígnum á aðra tinda. Farið svo niður að Seljavöllum. Allt frekar hefðbundin þverun Eyjafjallajökuls held ég að megi segja.Gengið áleiðs upp á Skerjaleið. Pétur Ásbjörnsson fremstur.
Leiðin sem var gengin. 19,8km skv. GPS tækinu og heildartími 12:10. Það var sem sagt ekki sett hraðamet í þessari ferð!
Það var gengið á alla eða flesta tinda jökulsins í þessari ferð en eitthvað fer mismunandi sögum af hvað þeir heita. Þegar ég hélt að það mætti vera ljóst að sá fyrir ofan Skerin heiti Goðasteinn, svo komi ónefndur tindur sem hefur nýverið fengið heitið Gígtindur og þá Guðnasteinn sem er lægri en blasir við frá Seljavöllum og Þorvaldseyri en Hámundur þar inn af og hæstur þá kom babb í bátinn þegar ég fór í klippingu í gær. Klipparinn sem er ættaður frá líklega Kvíhólma rétt hjá Sauðhúsvelli hélt því fram að í han sveit og stutt af Þórði á Skógum væri Hámundur tindurinn beint fyrir ofan Skerin (sem ég hef alltaf viljað kalla Goðastein) en svo sé vestari tindurinn séður frá hans svæði sá sem á að kallast Goðasteinn (Ónefndur Gígtindur í minni bók) og svo sá eystri Guðnasteinn sem ég get skrifað uppá reyndar. En þá stendur eftir að hæsti tindurinn sem blasir svo sem hvergi alveg við úr nærsveitum jökulsins hann verður nafnlaus. Finnst mér þessi nafnahefð því ekki ganga alveg upp. En líklega er vandamálið það að tindarnir sem eru líklega að minnsta kosti 5 talsins (því það er einn lítill fyrir austan þann sem ég kalla Hámund) en nöfnin voru bara þjú áður en Gígtindsnafnið komi til.Undir Ónefndum Gígtindi eða kannski Goðasteini. Hámundur og Guðnasteinn fjær. Raunar má sjá fimmta tindinn vinstra megin á bakvið Hámund þann hæsta.
Spennandi gönguleiðin sem mér hefur svo dottið í hug er að fara upp með Gígjökli að austan upp á Fremi-Skolt sem ég held að sé alveg hægt að fara. Svo þaðan á Goðastein og áfram hringinn á Hámund. Halda þá áfram meðfram gígnum sem ég þekki ekki hversu gott er að fara og svo niður á Innri-Skoltinn. Fara svo einhverja leið þaðan niður sem ég þekkki ekki hvort eða hvernig sé hægt. Skilst samt á Páli Ásgeiri að Magnús Tumi eigi einhverja leið þar niður.
Mitt línugengi undir hinum ónefnda Gígtindi... eða er það Goðasteinn?
Núna um helgina hafði svo staðið til að fara á Öræfajökul á gönguskíðum, gista þar uppi og ná öllum tindunum á hringum umhverfis öskjuna. Það verður hins vegar að bíða betri tíma þar sem veður er ekki sérlega hagstætt þar austur frá núna þó það sé bara blíðan í henni Reykjavík.
No comments:
Post a Comment