Thursday, December 03, 2015
Það er vetur
Ætli það sé ekki nákvæmlega ein vika síðan. Það byrjaði að snjóa. Fyrst bara frekar lítið þannig að mér fannst upplagt að fara út að fjallahjóla í snjónum. það var gaman. Daginn eftir var kominn hellings snjór - eða svo fannst mér þá. Það var líklega föstudagur. Þá var jólagleði í Staka. Ég var ekki lengi þar sem ég átti eiginlega að vera að taka próf - þriggja vikna heimapróf - tvær vikur búnar og ég ekki byrjaður á neinu.
Á laugardeginum var svo allt komið á kaf í snjó - eða svo hélt ég. 20cm jafnfallinn snjór í henni Reykhavík eða kannski var það eitthvað meira. Fór á gönguskíði með Gunnanum í Heiðmörk. Það var gaman og svo var ég að reyna að byrja að skrifa fjárans grein sem þetta heimapróf á að snúast um. Það var ekki jafn gaman. Valdi mér að skrifa um öskufall - það ætti auðvitað að vera gaman!
Á sama tíma hafði ég til að dreifa huganum helst til mikið óvæntan áhuga manneskju úr óvæntri átt. Kannski meira um það seinna. Gafst loks upp á því í bili - enda kominn langleiðina með að klúðra þessum prófum núna endanlega.
Frekar undarlegt að fyrir einu ári var ég að berjast í heimaprófi og þá var ég í alvörunni að reyna að ná 10 og varð ekkert of glaður með að fá bara 9.5. Núna er mér allt í einu eiginlega slétt sama hvað ég fæ. Veit ekki alveg hvað gerðist en einhvern veginn varð mér allt í einu bara dálítið sama um þetta í bili. Kannski það að há einkunn er bara tala á blaði - sé ekki að það skipti máli út fyrir það - veit svo sem ekki alltaf út af hverju ég er að þessu!
Sé annars eftir á að kannski er málið að mér finnst ég ekki hafa lært svo mikið í þessum kúrsum - þarf því ekki að sýna fram á með einhverri einkunn að ég hafi staðið mig vel - þar sem ég í rauninni var ekkert að standa mig vel.
Fékk mér síðan myndavélagöngutúr í Bónus í kvöld. Tók þá þessar myndir hér efst og neðst. Bíllinn hennar Ólafar á efri myndinni er við það að hverfa í snjóskaflinn. Það er spáð hálfgerðri stórhríð á morgun. Reyndar ekki mikil snjókoma en það verður hvasst með því. Í dag snjóaði meira í logni. Var samt dálítið blint. Fór með gönguskó í viðgerð vestur í bæ og var logandi hræddur um að einhver glanninn myndi keyra á mig. En það slapp til. Á neðri myndinni er eitthvað mér ókunnugt fólk að ganga yfir brúna á Miklubrautinni á móts við Hagkaup í Skeifunni - svona ef einhver fer að spá í þessar myndir. Ég annars nokkuð sáttur við þær.
En svo á ég að skila þessu greinaskrifaprófi á mánudag og svo andhverfa prófinu á föstudag. Veit ekki hvað kemur út úr þessum prófum hjá mér. Ef ég næ þeim þá ætla ég að láta það duga til að gleðja mig. Ef ég fell þá er það bara þannig. Ekki ætla ég að erfa það en hafa eitthvað meiri tíma til að gera það sem mér sýnist að þeim afloknum.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Já, ég get sagt þér það Raggi minn að einkunnir eru ekki það sem mestu skiptir í lífinu. Þegar upp er staðið skipta þær engu máli... Og ég veit þú hefur staðið þig vel í þessu námi:) tía að sjöa skiptir ekki máli til lengri tíma litið:) það er bara staðið eða fallið:) (komið frá kennara með reynslu:)
Post a Comment