Reykjavíkurmaraþon
Skórnir klárir... merkið klárt... spurning með mann sjálfan!
Jæja... þvert á læknisráð og ekki almennilega æfður og með dularfullan verk í mjöðm lagði ég af stað í mitt fyrsta alvöruhlaup í meira en 10 ár. Var eitthvað búinn að skoða hvenær ég hljóp svona síðast en það var fyrir fótbrot og líklega einhverjum árum fyrr... man það bara ekki en meira en 10 ár voru það.
Þetta var pínulítið bara óvart. Deloitte að styðja við starfsfólk að hlaupa... borga þátttökugjaldið og svo einhver peysa líka og ég lét tilleiðast. Ef það hefði ekki verið raunin þá hefði ég líklegast bara hætt við. Þegar ég var búinn í einhverjum gönguferðum og ætlaði að fara að æfa mig þá fékk bara einhverja óskiljanlega verki. Það var held ég í fæti fyrst og svo í mjöðm. Ákvað að utanvegaskórnir væri ekki nógu góðir fyrir harða undirlagið þannig að það voru verslaðir nýir hlaupaskór eins og ég notaði hér í dentíð.
Markmiðið hafði verið að hlaupa á undir 1 klst en það eiginlega breyttist þannig að markmiðin urðu:
- Komast í mark án þess að hafa skaða af... og þá var númer eitt að gera þetta án skaðans
- Hafa gaman
- Vera ekki svo seinn að ég yrði einmanna seinastur af öllum eða þannig.
Svo rann upp hlaupadagurinn... Ég vaknaði og fékk mér líklega bara kaffi eins og venjulega... var að taka mig til í rólegheitunum og var svo búinn að ákveða að hjóla niðreftir. Það var í raun lang einfaldast og þurfa þá ekkert að veseneast með bílastæði... hægt að skilja hjólið eftir hvar sem var. Fór í hlaupagallann og kominn með númerið á... eitthvað að vesenast og endaði auðvitað á því að leyfa ADHD að klúðra þessu næstum því. Þurfti sem sagt að hraða mér en sá samt að ég var alveg sæmilega tímanlega þegar ég var kominn niður að Snorrabraut. Sá líka fleira fólk hjólandi í hlaupaskóm og með númer á bumbunni.
Hjólið skilið eftir einhvers staðar í Þingholtunum og ég mættur. Þetta var æfintýralegur fjöldi og mikið fleiri en fyrir þessum rúma áratug... og alls konar fólk. Ég ætlaði að finna einhverja blöðru til að elta og hafa þá hraðann stoilltann miðað við það en fann enga. Svo sem allt í lagi þar sem ég var með mitt úr.
Svo var farið að telja niður og það var ræst... en ekkert gerðist. Held að það hafi liðið einhverjar þrjár mínútur áður en ég fór að hreyfast og enn fleiri mínútur áður en ég fór yfir ráslínuna. Ég setti mína klukku af stað þá því ég var meira að hugsa um flögutímann en að ná sérstökum byssutímaárangri.
Þetta gekk alveg bara ágætlega og þar sem ég byrjaði frekar aftarlega líklega þá var ég allan tímann að fara framúr öðrum frekar en að það væri verið að fara fram úr mér. Mjöðmin kikkaði reyndar inn þegar ég átti svona 3 km eftir og ég hægði eitthvað á mér. Var reyndar búinn að sjá að ég væri ekki að ná þessu á klukkutíma, alls ekki byssutíma og heldur ekki flögutíma. Það var bara allt í lagi og best að passa sig á að ganga ekkert frá sér í þessu.
Flögutíminn varð eitthvað 63 mínútur minnir mig. Skiptir ekki öllu máli eða bara ekki neinu máli. Skondnast kannski að ég held að ég hafi aldrei lent eins framarlega, þ.e. áður þegar ég var að fara á undir 1 klst þá var ég samt að koma í mark í seinni hlutanum en núna var ég held ég í fyrri hlutanum.
Svona eiginlega þá var þetta eitthvað það skemmtilegasta sem ég hafði gert lengi og verð líklega að fara aftur á næsta ári. Get þá vonandi hlaupið betur verkjalaus.
Að koma í mark á bara ágætum tíma þannig séð og fullt af fólki út um allt með manni, á undan manni og á eftir manni!
----------------------
Skráð inn eitthvað eftir dúk og disk, 28-10-2024
No comments:
Post a Comment