Sunday, October 13, 2019

Sporðamælingar Hagafellsjökla 11-12 október 2019

 
Á hraunklöppum ofan á móbergi sem kom undan Eystri-Hagafellsjökli fyrir fáum árum. Aðstoðarmenn í mælingunni, Höskuldur Björnsson g Birgir Höskuldsson

Líklega var þetta að verða síðasti séns en það var farið til sporðamælinga að Hagafellsjöklum núna um helgina. Sá vestari mælist hafa hopað 88m frá í fyrra og sá eystri 151m. Hef ekki áður mælt jafn mikið hop á vestari jöklinum og sá eystri er með því mesta.

Frá mælingu vestari jökulsins í góðri birtu 2000 lúmena höfuðljósdjásns.

Það var farið af stað úr bænum á föstudegi hvað ég man eitthvað uppúr hádegi. Gerð taktísk mistök með að fara fyrst í vestari jökulinn því þegar upp er staðið þá er mikið fljótlegra að fara fyrst í þann eystri. Endaði á að mæla jökulinn að mestu í myrkri. Var einn á ferð og það var dálítið sérstakt. Fyrir tæknimistök var næstum búið að kalla út björgunarsveitir til að sækja mig - þrátt fyrir að ekkert amaði að!

Séð til Eystri-Hagafellsjökuls frá mælipunkti FAR, yfir Hagavatn. Öxlin sem er á myndinni kom fram undan jöklinum sem jökulsker fyrir um 5 árum síðan.

Gisti á Hlöðuvöllum einsamall í skálanum og það var massafínt. Hitti Höskuld og Birgi við Hagavatnsskálann og farið til mælinga í afar góðu veðri að eystri jöklinum. Hann heldur áfram að hopa hratt og mældist hop hans um 150 metrar.

 
Skálinn við Einifell undir aspartrjánum fínu.

No comments: