Thursday, October 31, 2024

Um tábrot og upprifjun á fótbroti

Tábrot er yfirleitt minniháttar en það er aðeins óþægilegt að tjóna aftur fótinn sem margbrotnaði fyrir tæpum 10 árum... tábrotið og bataferli fjarvinkonu sem braut sig í sumar er að rifja þetta upp hjá mér.

Svona það sem ég ætlaði að halda til haga voru nokkrir hápunktar... eða kannski frekar lágpunktar.

Þegar ég var að fara heim af spítalanum eða var í fyrstu gifsskiptunum að þá vildi aðstoðarlæknirinn sem var með í skurðaðgerðinni fá að hitta mig. Hann var líklega á leið í sérnám í skurðlækningum og var með til að sjá framkvæmd aðgerða. Hann sagði mér að áður en aðgerðin hófst þá hefði hann í raun ekki gert ráð fyrir að ég myndi nokkurn tímann geta gengið aftur +a eðlilegan hátt. Aðgerðin hefði hins vegar heppnast þvílíkt vel að hann teldi þá eftir aðgerðina allar líkur vera á því að ég kæmist aftur á lappir og kæmist aftur á fjöll

Það var þegar ég var búinn að vera í gifsi í eitthvað yfir tvo mánuði og losnaði loksins við það - var búinn að hlakka þvílíkt til. Er svo trillað í hjólastól til Rikka skurðlæknis og hann bara horfir á röntgenmyndina og segir svo upp í opið geðið á mér að þetta sé bara alveg ógróið ennþá og núna verði ég bara að fara að ganga á járnunum. Ég sem auðvitað hafði haldið að ég gæti bara farið að ganga eitthvað um leið og ég kæmist úr gifsinu.

Þegar fóturinn kom úr gifsinu og var upp að hné með eiginlega einsleita breidd. Tábergið sem er á að vera aðeins breiðara en ökklinn með sömu breidd og ökklinn sem var stokkbólginn og blautur af bjúg. Ökklinn já eins og ég veit ekki hvað. Og kálfavöðvarnir sem voru bara gjörsamlega horfnir.

Og svo þegar ég hitti fyrst Árna sjúkraþálfara í Gáska. Ég á tveimur hækjum með fót sem var hægt að vinda í orðsins fyllstu merkingu, útþaninn af bjúg og bólgum – og ég bara spurði hann hvenær ég mætti eiga von á að komast í alvöru fjallgöngu! Hann sá að þetta var alvöru verkefni!

Eða þegar ég var í sjúkraþjálfun að reyna að virkja aftur litlu vöðvana í ökklanum. Ég horfði á ökklann og heilinn í mér sagði honum að nugga fætinum eitthvað til… en það gerðist ekkert. Þessir vöðvar sem höfðu ekkert gert í einhverja mánuði voru líklega farnir að halda að þeir myndu aldrei aftur gera neitt og voru bara hættir að nenna að bíða eftir þessu.

Eða þegar ég fékk baslagið líklega svona 8 mánuðum eftir að ég brotnaði og fór að nota hækjurnar aftur í smá tíma. Það var ekki gaman en ég komst fljótt aftur á góðan bataveg.

Eða þegar ég hitti Rikka skurðlækni í eitt af síðustu skiptunum og það var búinn að vera nokkuð góður tröppugangur í því hvað ég mátti gera. Fyrst mátti ég ganga með tveimur hækjum, svo einni hækju, svo án þess að vera með hækju… að sársaukamörkum… mátti hjóla en það eina sem var eftir var að hann segði að ég mætti hlaupa. En þá kom hann með þennan skelfilega dóm að ég mætti aldrei alla æfina, aldrei hlaupa aftur. Rökin þau að þegar maður hleypur þá kemur alltaf högg á fótinn og minn fótur myndi ekki þola það. Ég tók svona eitthvað mark á honum og ég svo sem var ekkert fær um að hlaupa eitt né neitt þarna fyrst. Svo kannski svona ári seinna þá fór ég að hlaupa við fót upp í móti á malarstígum uppi í Heiðmörk sem svo þróaðist í að ég bara fór að hlaupa á malarstígum og utanstíga. Dásemdarhlaup þar sem markmiðið var alls ekki að hlaupa hratt heldur að hlaupa varlega. Ennþá hleyp ég helst ekki niður því þá er mikið erfiðara að passa fótinn og almennt hleyp ég aldrei á malbiki eða hörðu undirlagi. Undantekning reyndar var gerð í ágúst þegar ég fór í Reykjavíkurmaraþon – 10 km og mikið djöfull var það æðislega gaman.

Núna þessum tæpu 10 árum seinna er fóturinn í rauninni alveg ótrúlega góður. En ég hugsa alltaf um þennan fót á sérstakan hátt og passa mikið betur uppá hann. Ef ég finn til í fætinum sem brotnaði þá verð ég alltaf dálítið skelfdur og núna er slæmt að hann sé með brotna tá.

Það sem ég síðan má eiga von á einhvern tímann seinna… kannski eftir fá ár en vonandi eftir mjög mörg ár, er að brjóskið í hælnum verði búið. Bæði er að ég tjónaði brjóskið í slysinu – sköflungurinn brotnaði neðst og sprungur náðu niður hælbeinið í gegnum brjóskið – og svo að það er alltaf einhver stallur á sköflungnum sem er hægt og rólega eða þannig, að spæna brjóskið upp. Ég þarf því ekki að gera ráð fyrir að það endist mér út æfina. Rikki sagði annars að það væri ekkert mál… þá yrði ökklinn bara gerður stífur 

......


----------------------
Myndatexti á undan /a merkinu... þarf ekki /br á eftir...
----------------------

....

Monday, October 28, 2024

Ulfarsfellin 100 sinnum

20240310_122214Á toppi fellsins 10. mars 2024.

Þetta er náttúrlega bara eitthvað ruggl... það var sett allsherjarátak að fara 100 siinnum á Úlfarsfellið þetta árið. Ég hef átt einhverjar skorpur en er ennþá ekki nema hálfnaður þannig að miðað við að ég er tábrotinn og ekki mjök mikið eftir af árinu þá er ekkert of líklegt að ég nái því úr þessu. En þetta var nú samt bara ágætt!
Capture

Sunday, October 27, 2024

Kæjakræðarinn

Svo því sé haldið til haga þá var farið heilan helling á kæjak síðasta sumar.

Fór einhvern tímann síðsumars ágætan túr á þeim gula um Elliðavatn. Er kannski að ná einhverjum tökum á honum og ætla að reyna meira næsta sumar. Búinn að vera að skoða hvað þetta stöðugleikadæmi hjá mér er og komst eiginlega að því að málið snýst um tvenns konar stöðugleika. Þ.e. fyrsta stigsa og annars stigs... primary and secondary heitir það líklegast á útlenskunni. Kæjak sem er þægilegur og veltur alls ekki á sæmilega sléttu vatni, er ekki eins góður í alvöru öldugangi. Ef aldan bara setur þannig bát á hvolf þá getur ræðarinn í sjálfu sér ekkert gert til að koma í veg fyrir það. Bátur sem er með sterkara secondary stabilitet er ekki jafn stöðugur á sléttu vatni en ef það er öldugangur þá getur ræðarinn haldið honum frekar á réttum kili.

En þetta verður eitthvað meira gert næsta sumar.

20240922_190431Guli kafbáturinn í góðum gír, 22. september 2024


Tábrot


Plástur á til að halda þessu á sínum stað

Veit ekki... en það var á miðvikudaginn í vikunni sem leið, að ég gekk eitthvað hratt inn á bað og þar var stóll og sá fékk nú að kenna á því... eða reyndar frekar litla táin mín sem stóð beint út í loftið!

Einhverja sögu væri hægt að segja af því hvernig þetta var á slysó en mér var ruglað saman við einhvern útlending sem var líklega fótbrotinn eftir vinnuslys en það kom í LSH appinu mínu að ég væri farinn í gifsmeðfer... sem passar engan vegin við brotnar litlutær... því LSH gerir víst bara ekkert í þeim. Röntgenmynd tekin en ég svo bara sendur heim og ekki einu sinni settur plástur til að teipa tána við næstu tá... það þurfti ég að gera sjálfur en ekki gott að gera það upp á eigin spýtur.

Ég veit annars ekki alveg hversu rétt þetta er að ég hafi brotnað... finnst þetta allt frekar skrýtið þar sem táin virkar eiginlega ekki á mig eins og hún hafi brotnað. Ég sá annars ekki röntgenmyndina sjálfur en þyrfti helst að fá að sjá hana þannig að ég viti betur hvað ég megi gera og hvað ekki.

Ef brotið var eins og aflögunin benti til þá var beinið alveg í sundur en þar sem ég gat eiginlega alltaf hreyft tána eitthvað til þá passar það ekki alveg við þetta.  Er farinn að hallast að því að ég hafi farið úr lið eins og ég hélt fyrst en svo hafi þá e.t.v. eitthvað smávægilegt brotnað. Annar möguleiki er að læknirinn hafi bara séð eitthvað annað gamalt brot á þessari tá. Einhvern veginn er ég farinn að halda að ég hafi í gegnum tíðina bara verið nokkuð iðinn við að brjóta þessar tær mínar.

Friday, October 18, 2024

Oslóarferð

20241017_162710Norska konungshöllin við enda Karls Jóhanns... göngutúr kvöldið áður en haldið var heim á leið

Kannski ekkert mest í frásögur færandi en það var farið til Oslóar... nokkrir dagar - vinnuferð.

Það sem ég ætlaði kannski helst að minna mig á með þessari færslu að það var frá síðustu mánaðamótum að ég er farinn að teljast vera 70% starfsmaður á Nordic.

20241017_205931Fyrst flogið með SAS til Köben og svo áfram til Íslands... jú - hefur verið gert áður!


-------
Skráð inn eitthvað eftir á (27.okt) en mikið djöfull er þetta Blogger kerfi leiðinlegt!

Wednesday, October 09, 2024

Jöklamæling

DJI_0262 


Það var farið og mælt einn jökul, einsamall. Gunninn bara að slæpast hjólandi í útlöndum og hann eitthvað hálfpartinn í fýlu fannst mér að ég væri að mæla jökul... eins og ég hefði eignað mér það. Ekki mikið hægt að mæla jökul með einhverjum sem er bara á þvælingi út í heimi... eða eitthvað allt annað var hann að gera.

Það sem kannski samt helst bar þarna til tíðinda var að ég arkaði upp í Borgignar og nam þar land! '?DJI_0317


Skráð inn eitthvað eftir á en mikið djöfull er þetta Blogger kerfi leiðinlegt!

Saturday, October 05, 2024

Ertu búinn að læsa bílnum... er afturhlerinn lokaður?

20241005_080233Þarf eitthvað að loka?

Það er þegar maður er að fara að gæda... einhhvern tímann þá var rútan lögð af stað þegar einn góður farþegi hrópaði upp hvort það gæti verið að einhver ætti eftir að loka bílnum sínum... og það var auðvitað ég sem átti þann bíl.

Það er a.m.k. ein góð kona með í ferðunum sem er farin að passa uppá mig pog spyr... dálítið til að stríða mér hvort ég sé búinn að loka afturhleranum á bílnum mínum... en þegar farið var í burjun október níuna þá var hún ekki með og því fór næstum því sem fór. Ég reyndar fattaði þetta rétt áður en rútan lagði af stað en það var líklega bara út af því að mig vantaði kaffibollann sem var þarna tilbúinn handa mér.

ADHD eða ekki... ég veit ekki... en það lendir mér vitanlega enginn annar í þessu... a.m.k. ekki svona oft eins og ég! Ég reyndar er með það hlutverk að þurfa að passa uppá flest í þessum ferðum þannig að ég er svo sem líklegur til að gleyma svona aukaverkum eins og að loka bílnum... en þetta er auðvitað ekki alveg eðlilegt!

Sú sem passar þarna uppá mig held ég reyndar að þekki eitthvað dálítið til ADHD.
----------------------
Ekki skráð neitt svo löngu seinnia... bara 28. október